Ungmennahúsið Hvíta húsið hóf starfemi sína 1. maí 2002 að frumkvæði Rauða kross deilda á Vesturlandi í samstarfi við Akraneskaupstað. Árið 2004 tók Akraneskaupstaður alfarið við rekstrinum. Í starfi Hvíta hússins er unnið út frá hugmyndafræði sem byggir á ungmennalýðræði og tryggir áhrif ungmenna í starfi. Áhersla er lögð á samvinnu, virðingu, reynslunám, félagsfærni, sjálfstyrkingu, samfélagslega virkni og þátttöku. Síðast en ekki síst er verið að vinna að forvörnum og skýr afstaða tekin gegn neyslu vímuefna og annarri neikvæðri hegðun. Ungmennahús eru vettvangur þar sem ungmenni fá tækifæri til að koma hugmyndum sínum á framfæri og í framkvæmd, vinna að áhugamálum sínum og fást við skemmtileg verkefni.